Að gefnu tilefni viljum við í MAESTRO koma á framfæri nýjum viðmiðum í skráningu í vísindaferðir. Hér eftir munu félagsmenn og aðrir þurfa að hafa eftirfarandi í huga við skráningu í vísindaferðir:

  • Skráning í vísindaferðir stendur að öllu jöfnu yfir til klukkan 12 á hádegi á fimmtudegi fyrir vísindaferð og verður skráning bindandi eftir þann tíma.

Þetta er gert til þess að koma til móts við það fyrirtæki sem er heimsótt hverju sinni svo það geti hagrætt hlutum á borð við veitingar og sætafjölda. Þannig er fjöldi skráðra nemenda tilkynntur fyrirtæki á hádegi á fimmtudegi.

  • Skráðir meðlimir sem af einhverjum ástæðum sjá sér ekki fært að mæta í vísindaferð skulu boða forföll ekki seinna en klukkan 12 á hádegi á fimmtudegi með því að senda tölvupóst á maestro@hi.is, senda skilaboð á Maestro á Facebook eða hafa beint samband við einhvern úr stjórninni.

Þetta er gert til þess að gefa öðrum færi á að mæta í ferðina ef ske kynni að biðlisti í ferðina hafi myndast. Þó ekki sé fullt í ferðina teljum við boðun forfalla engu að síður almenna kurteisi.

  • Skráðir meðlimir sem ekki boða forföll fyrir klukkan 12 á hádegi á fimmtudegi og mæta ekki í vísindaferðina munu fá “gult spjald” eða áminningu. Endurtaki sagan sig í annað skipti fær sá hinn sami “rautt spjald” og er gert að sitja hjá í næstu vísindaferð.

Þetta er gert til þess að koma betra skipulagi á skráningu í vísindaferðir og til þess að forðast óboðuð forföll nemenda.

Við í stjórn MAESTRO teljum þessi viðmið sanngjörn og setjum þau fram til þess að knýja fram virðingu við gestgjafa okkar, það fyrirtæki sem heimsótt er hverju sinni. Nokkuð hefur borið á óboðuðum forföllum nemenda og er bundin von við að fyrrgreind viðmið muni draga úr þeim.