Lög MAESTRO

1. gr. Nafn félagsins er MAESTRO, félag meistaranema í Viðskiptafræðideild og Hagfræðideild Háskóla Íslands. Heimili þess og varnarþing er í Háskóla Íslands.

2. gr. Hlutverk og tilgangur félagsins er að vera hagsmunafélag meistaranema í Viðskiptafræðideild og Hagfræðideild.

3. gr. Markmið félagsins eru:

 • Að verja hagsmuni félagsmanna.
 • Að veita gagnlegar upplýsingar
 • Að efla tengsl milli nemenda.
 • Að vera í góðum samskiptum við skólann.

4. gr. Gildi félagsins eru: Fræðsla. Skemmtun. Tengsl.

5. gr. Öllum nemendum á meistarastigi í Félags- og mannvísindadeild HÍ er heimilt að ganga í félagið. Félagsmenn eru þeir sem hafa greitt félagsgjöld hverju sinni.

6. gr. Í upphafi haustannar skal stjórn félagsins kynna félagið nýjum nemendum á undirbúningsnámskeiði (sé það haldið) og ganga í stofur fyrstu vikur annarinnar til að auglýsa aðalfund og fá nýja nema í stjórn.

7. gr. Aðalfundur skal haldinn í september ár hvert. Hann skal auglýstur í upphafi haustmisseris á opinberum vettvangi. Á aðalfundi skulu reikningar félagsins fyrir síðasta ár lagðir fyrir til samþykktar. Félagsgjöld skulu ákveðin á aðalfundi. Stjórn félagsins skal kosin á aðalfundi. Skráðir meistaranemar í Viðskiptafræðideild og Hagfræðideild hafa atkvæðisrétt á aðalfundi.

8. gr. Reikningsár félagsins er frá 1. september til 31. ágúst. Fráfarandi stjórn félagsins er skylt að skilja eftir að lágmarki 20.000kr afgangstekjum.

9.gr. Dagskrá aðalfundar skal vera:

 1. Skýrsla stjórnar
 2. Stjórn leggur fram reikninga félagsins
 3. Umræður um skýrslu og reikninga
 4. Laga- og skipulagsbreytingar
 5. Kosning stjórnar og nemendafulltrúa
 6. Ný stjórn tekur formlega við
 7. Önnur mál

10. gr. Æðsta vald, milli aðalfunda, í málefnum félagsins og þeirra nefnda sem starfa innan þess skal vera í höndum stjórnar félagsins. Stjórn félagsins skal skipuð sjö meistaranemum, hið minnsta, úr Viðskiptafræðideild og Hagfræðideild:

 • Stjórnarformanni, sem á sæti á deildarfundum sinnar deildar
 • Fjármálastjóra, sem er varaformaður félagsins og situr deildarfundi í fjarveru formanns
 • Viðburðastjóra
 • Hagsmunastjóra
 • Vefstjóra
 • Meðstjórnendum (að lágmarki tveimur), þeir mega vera fleiri sé áhugi fyrir hendi
 • Varamönnum (fjöldi fer eftir áhuga)

Í stjórn félagsins skulu einnig sitja 2 nemendafulltrúar frá hverri línu, sem halda matsfundi og deildarfulltrúi Viðskiptafræðideildar eða Hagfræðideildar (fer eftir úr hvorri deild formaður er). Stjórnarformaður hefur heimild til að fela öðrum stjórnarmanni setu á deildarfundum, sé þess þörf, en ber að tilkynna það skrifstofustjóra í tölvupósti.

Kosningabærir menn eru allir skráðir meistaranemar í Viðskiptafræðideild og Hagfræðideild. Kosnir aðilar hafa umboð til eins árs eða til næsta aðalfundar.

11. gr. Stjórnarformaður skal bera höfuðábyrgð á rekstri félagsins. Hafi engin framboð borist í önnur embætti eða framboðum verið hafnað skal hann fá umboð til að nefna samstarfsaðila til stjórnar.

12. gr. Hlutverk stjórnar er að koma fram fyrir hönd félagsins, boða til funda þegar ástæða þykir til og hafa frumkvæði að því að 2. gr. sé framfylgt. Stjórn félagsins er samábyrg fyrir fjárreiðum og skuldbindingum félagsins. Stjórn félagsins skal hafa frumkvæði að viðburðum fyrir félagsmenn ásamt að sjá til þess að matsfundir fari fram einu sinni á hvorri önn, hagsmunastjóri ber formlega ábyrgð á þessu þætti.

13.gr. Heimasíða félagsins, maestro.hi.is, er megin samskiptamiðill félagsins til félagsmanna. Honum skal haldið við af vefstjóra og efni hans uppfært reglulega. Einnig skal starfræktur póstlisti en stjórnarformaður hefur leyfi til að senda út fjölpósta á félagsmenn. Stjórnarformanni er heimilt að fela öðrum stjórnarmanni ábyrgðina á póstsendingum.

14. gr. Fyrrum félagsmenn sem lokið hafa námi skulu hafa jafnan aðgang að viðburðum og fríðindum félagsmanna líkt og þeir væru í námi. Þeir skulu þó hafa frumkvæði að slíku sjálfir og greiða félagsgjald.

15. gr. Heimilt er að breyta lögum þessum á aðalfundi.

16. gr. Lög þessi taka gildi þegar aðalfundur hefur samþykkt þau